Lífsgleði mín er engu lík og var.

Í dag vaknaði ég ánægð með lífið, fór í æfingar og síðan til mömmu.  Alltaf gott að fara til mömmu, fá sér kaffi og spjalla um daginn og veginn.  Þar er breyting á, því nú snerist umræðan við eldhúsborðið um, hvernig við ættum að fara að næstu mánuðina.  Ég er elst fjögurra systkina og erum við fjölskyldan mjög samrýmd.  Foreldrar mínir eru á sextugsaldri og hafa þrælað sér út allt sitt líf til að eiga ofan í okkur og á og aðstoðað þegar þörf er á, hvort sem það er tilfinningalega eða fjárhagslega og svo öfugt.  Nú er staðan orðin svoleiðis að það sem þau hafa þrælað fyrir og eignast í gegnum tíðina, er kannski allt farið fyrir bí.  Ég sjálf hef verið þeirri auðnu aðnjótandi að eignast tvær yndislegar stúlkur, fallegt heimili og þak yfir höfuðið.  Það er líka hætta á því að það litla öryggi sem ég hef skapað, sé farið líka.  Í stað gleði þá fylltist hjarta mitt mikilli sorg og það eina sem ég get gert er að biðja og taka á þessu einn dag í einu.  Mér finnst mjög erfitt að horfast í augu við dagana núna.  Það sem kemur mér á fætur á morgnana eru stúlkurnar mínar sem ég vil ekki að vanhagi neitt.  Ég veit að margur hefur það verra en ég, þar á meðal ungt fólk sem er nýbyrjað búskap og hefur keypt sér bíl og hús með svokölluðum myntkörfulánum.  Við í fjölskyldunni ákváðum það að við myndum gera meira af því að borða saman og styrkja hvert annað á þann hátt.  Öll saman í púkk.  Jólin yrðu þannig að við kæmum saman og lítið yrði um nýjar gjafir í ár heldur ættum við að föndra og finna eitthvað á nytjamörkuðum og gefa hvort öðru.  Vonandi fara hlutirnir að breytast því lífsgleði mín er engu lík og var. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu þá mamma hennar Sonju dúllu ??

Kveðja Bylgja njarðabraut

Bylgja (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband